+354-868 5544 bjorg@bjorgvilhjalms.is

Húsafell

Húsafell er meðal fjölsóttustu ferðamannastaða hér á landi, enda einstök náttúruperla í stórkostlegu landslagi.

Hér er draumaland göngumannsins enda skartar Húsafell mörgum af fegurstu afbrigðum íslenskrar náttúru sem gerir gönguferðir  að dásamlegri upplifun. Margar gönguleiðir eru í boði og hægt er að velja styttri og lengri leiðir allt eftir getu og vilja göngugarpa.

Við hönnun göngukorta á Húsafelli voru leiðirnar aðgreindar með litum, heilar línur þar sem leiðir eru stikaðar og punktalínur við óstikaðar leiðir. Kortið er bæði á stórum spjöldum úti í náttúrunni og einnig sem prentgripur sem dreift er á hótelinu, upplýsingamiðstöðinni og í sundlauginni. Göngukortunum hefur verið einstaklega vel tekið og sýnir áhuga fólks á að ferðast fótgangandi um landið. Búið er að stika leiðina um Bæjargil upp frá bænum Húsafelli og Oddaleiðina, hringleið sem liggur frá Hótelinu inn í hraunið og að Hundavaðsfossi. Stikur eru á leiðunum með sömu litum og línurnar á kortinu.

Einnig voru hönnuð skilti við aðkomuna inná svæðið. Appelsínugulur grunnlitur er hluti af heildarútliti Saga Jarðvangs og Húsafell er hluti af því svæði. Saga jarðvangur (Saga Geopark) er landsvæði sem spannar uppsveitir Borgarfjarðar og nær yfir 2.270 km2 svæði .