+354-868 5544 bjorg@bjorgvilhjalms.is
Reykjavík eldsnemma um morgunn. Kuldalegt nærumhverfið og vinnukranar í bland við ljósastaura sem búið er að slökkva á í morgunskímunni.   Landið hvíta hvatt úr lofti – bless Ísland!     Við Sigga hittumst í Alicante og tókum lestina saman til Valencia. Við höfum beðið svo lengi eftir að hittast. Hún búin að vera á löngu ferðalagi í lélegu netsambandi um mið Ameríku og Argentínu. Húðliturinn hafði breyst.     Ferðalgagið  byrjaði á að heimsækja Magnús sem er nýfluttur með Veronicu til Valencia. Þau tóku vel á móti okkur með dýrindis máltíð sem Magnús eldaði og Veronica útbjó morgungraut fyrir okkur með kanil og allskyns ávöxtum. Þau eru góðir gestgjafar og gaman að sjá hvað unga fólkið er að koma sér vel fyrir í nýju landi. Veronica byrjaði í dýralæknanámi í haust og brennur fyrir að hjálpa dýrum og sérstaklega þeim sem farið er illa með. Hún hikar ekki við að siga lögruglunni á þá sem fara illa með dýr hér á Spáni.     Ég upplifi Valencia sem einstaklega vinalega og fallega borg. Pálmatré, appelsínu og sítrónutré sólskin og hiti.     Við vinkonurnar kíktum niðrí bæ og vorum fljótt komnar í verslanir og þá spratt upp löngun í að gera góð kaup. Allt kostar lítið og margt svo smart. Við sem erum alltaf að tala um einfalt líf, nægjusemi og sjálfbærni.     Eftir stutt stopp í Valencia fengum við okkur bílaleigubíl og keyrðum upp til fjalla. Sigga sér um að vísa vegin og ég keyri, þannig virkar þetta vel hjá okkur. Ég hef unun af því að þjóta á hraðbrautunum, sveitavegunum og litlum fljallvegum Spánar. Það sem ég þarf samt helst að passa mig á eru hringtorgin því hér gilda aðrar reglur en heima. Sá sem er í innsta hring hefur minnstan rétt. Ég held mig því í ysta hring og þeytist í gegnum hvert hringtorgið á fætur öðru. Við þjótum um nýtt land, stoppum þegar við erum svangar eða þegar við sjáum eitthvað fallegt., njótum þess að vera á Flateyjatíma og lífið er yndislegt.     Við keyrðum uppí Orihuela Del Tremedal sem er lítið fjallaþorp miðja vegu til Madrídar.     Það var of kalt uppí fjöllunum fyrir okkar smekk og við tókum stefnu aftur niður að ströndinni. Fórum kræklótta litla sveitavegi meðfram giljum og uppþornuðum árfarvegum. Sáum þorp sem falla vel inní umhverfið og virðast vera byggð úr efniviði úr nærumhverfinu, hér virðist maður og náttúra vera í jafnvægi og íslenski torfbærinn kom upp í hugann.